Sarpur fyrir febrúar, 2008

Þörf á frekari skriftum.

Ég er búinn að vera að hugsa um hvað ég ætla að gera við tímann minn þegar ég fer til Spánar. Þar sem ég eyði ekki nema 6 klukkutímum á viku í skólanum fyrstu þrjá mánuðina þá get ég búist við því að eiga ansi mikinn frítíma. Því hef ég verið að velta fyrir mér möguleikum mínum á að fylla upp í þennan frítíma sem ég sé reyndar í hillingum í dag. Þó það sé ekki nema vegna þess að upp á síðkastið er ég búinn að vera að drukkna í lífinu.

Þar sem Madrid mun vera heimaborgin mín í dágóðan tíma þá býst ég reyndar við að ég geti eytt ansi góðri prósentu einungis með því að skoða mig um. Það hljóta að vera til einhverjir skemmtilegir hlutir til að sjá.

En aðallega langar mig til að iðka rithöfundinn í mér. Ég hef alltaf verið hrifinn af því að skrifa og hef haft(oftar en ekki) gaman af því að skrifa um hinu ýmsu hluti, hvort sem það hefur verið á þessu bloggi eða ekki. Ritgerðarsmíðar hafa oftast verið frekar skemmtilegar en þó krefjandi í mínum augum þar sem ég hef oftar en ekki barist blóðugu stríði við stafina þangað til ég hef lokið við hina fullkomnu ritgerð. Og það stendur enn í dag, því það eru ekki nema nokkrir mánuðir síðan ég frétti það síðast að ritgerðinar mínar eru ennþá notaðar í kennslu í Flensborg.

„Ef þið viljið fá tíu, þá verðið þið að gera eins og Björgvin.“

Ég hef reyndar lent í leiðinlegum atvikum vegna þessa þegar fullir framhaldsskólanemar koma upp að mér og segja: „Veistu hvað ég hef þurft að leggja mikið á mig til þess að fá almennilega einkunn í þessum áfanga! Og allt út af þér!!!“ Síðan hrækja þér á mig og svívirða.

En það er svo sem ágætt að maður getur skilið eftir standarda fyrir aðra til að fylgja. Kannski hefði ég átt að fylgja þessari skriflöngun eftir í háskóla í staðinn fyrir að eyða þessum síðustu þremur árum vinnandi í skólakerfinu. Tími sem ég fæ ekki til baka, hef samt lært af og fylgir mér í reynslu. Samt sem áður fylgir ákveðin sektarkennd af vera ekki kominn með B.A í Hverju-sem-er.

En skrif hafa mér allavega verið mér hugfanginn lengi vel, þó þau hafa alltaf verið mér mjög krefjandi. En hugsanir, pælingar og greinargerðir eru eitthvað sem ég á auðveldar með. Skáldverk af öllu tagi hafa mér þótt erfiðari. Ég hef ekki þolinmæði né ímyndunarafl til þess að skrifa skáldverk, frekar tala ég frá hjartanu um málefni sem mér þykja skemmtileg. Án þess að þurfa að búa til aðstæður, persónur og lýsingar til þess að fylgja þeim.

Það fylgir þessu ákveðin útrás sem ég hef gaman af, þó þið þurfið ekkert endilega að hafa gaman af því. Því mér var að detta í hug að bloggfærsla um áhuga bloggarans á skrifum er ekkert endilega það athyglisverðasta í heimi. En þegar ég flyt út til Madrid til að nema Audio Engineering hjá SAE Institute í Madrid blundar samt í mér sú hugmynd hvernig ég geti lært námsefnið í þaula ásamt því að halda uppi skrifþörf minni. Því fékk ég þá hugmynd að það gæti náttúrulega verið góð hugmynd að stofna blogg eingöngu um hluti sem tengjast hljóðblöndun og minni reynslu af því námi. Þá fæ ég útrás fyrir skrifþörf ásamt því að læra námsefnið (og spænskuna) betur, og að auki get ég mögulega miðlað upplýsingum til einhverra sem þess þurfa og/eða vilja.

Kannski er ég bara svona forfallinn bloggari að mig vantar enn eina hilluna til að koma mér í að ég stofni audiothoughts.wordpress.com eða eitthvað álíka í framtíðinni. Kannski er ég líka bara svona mikill lifehack.org fíkill, sem enginn fílar nema ég, að ég sjái mig knúinn til þess að búa mér til eina sneið af kökunni.

Kannski eyði líka bara öllum tímanum mínum í að skrifa um þá hluti sem ég sé og sendi þá til http://www.gridskipper.com.

Auglýsingar

No effort needed

Ég mun halda áfram að valda ykkur vonbrigðum næstu daga með fjarveru frá skrifum eins og er búið að koma upp á daginn hérna upp á síðkastið. Ég hef ekki orku í að skrifa athyglisverðar bloggfærslur vegna vinnuálags, skóla og einkalífs.

Því mun verða lítið um skrif hér nema ég rífi mig upp úr þessari þreytu sem er búin að hrjá mig síðustu daga. Sem fer vonandi af sjálfri sér einhverntímann á næstunni.

Tilraunamennska núðlna.

Ég hef verið að gera smávægilega tilraun síðustu viku. Tók eiginlega ekki eftir því fyrr en í dag og því hafa ekki hávísindalegar aðgerðir verið í hávegum hafðar við gerð þessarar tilraunar. Ég hef verið eitthvað huga að eyðslu minni í mat dags daglega og þeirri staðreynd að ég eyði talsverðum skammt af laununum mínum í tóman skyndibitamat. Sem lýsir sér í hálfgerðri fíkn sem verður til þess að ég kaupi meira og meira af honum.

Þannig að ég tók eftir því í hádeginu í dag þegar ég var að borða skyndi-bolla-núðlurnar mínar að ég var að borða sama bragð frá þriðja fyrirtækinu á innan við viku. Ég hef s.s. verið að spara pening í hádegismat og hversu vel er hægt að spara þegar kostnaður er farinn úr 800-100 króna skyndibita niður að 89-200 króna skyndinúðlum. Það er alveg mörg hundruð prósenta sparnaður. Fólk í stjórnunarstöðum mætti prísa sig sælt yfir hyggjuviti sem mínu.

En skyndinúðlupakkinn sem ég borðaði í dag fellur undir einkunnagjöfina 2 af þremur mögulegum. Allar skyndinúðlurnar voru með kjúklingabragði en mismunandi bragð var samt af þeim öllum.  Eins og gefur að skilja af svona ódýru ruslfæði. En af þessum þremur núðlutegundum trónir YumYum tegundin á toppnum og Rookie fyrirtækið sleikir botninn með braglausustu núðlum fyrr og síðar. Ef þið kjósið að fara að mínum ráðum um núðlukap þá mæli ég hiklaust með YumYum, nema einungis með því skilyrði að muna að setja ekki nema svona helminginn af kryddinu útí. Því hann logar kjafturinn ykkar í klukkutíma eftirá.

En svona sparnaður dugir samt skammt þegar kemur að helginni og allur uppsafnaður sparnaður fer beint í leigubíla borgarinnar.

Skilgreining

„Lélegur kærasti er bara strákur sem viðheldur eigninni sinni illa“

-Fjóla Ósk Aðalsteinsdóttir

Svefntilraunir, slit.

Ég hef ákveðið að slíta þessari tilraun minni með svefn. Þar sem ég er nú orðinn veikur með hálsbólgu og kvef sé ég engan tilgang í að vera vakandi fleiri tíma á sólarhring til að láta mér líða illa í veikindum mínum. Ég veit ekki hvort ónægur svefn minn hafi orðið til þess að flýta fyrir veikindum mínum en það má alveg athuga það.

Þessi tilraun min var því mögulega bæði til góðs og ills. Ég gat alveg meikað þessa daga á þessum litla svefni ef ég þyrfti, með smávægilegum blundum inn á milli. En þær urðu til þess að ég missti aðeins meira en ég hefði viljað, bæði heilsusamlega og tilfinningalega.

Þannig að ef aðstæður ykkar eru góðar og fyrir hendi fyrir svona tilraun, endilega látið reyna á þetta.


Björgvin Benediktsson

Mínar hugsanir varðandi daglegt líf og þær hugsanir sem það vekur mér í brjósti.
febrúar 2008
M F V F F S S
« Jan   Mar »
 123
45678910
11121314151617
18192021222324
2526272829  
Auglýsingar