Archive for the 'Daglegt líf' Category

Fyrirlestra-stress

(Ég) Hélt tölu á málþingi í gær. Málþing um hópastarf í æskulýðsstarfi þar sem ég fór í gegnum reynslu mína af vinnu af mínum hóp síðasta árið. Eftir mikinn undirbúning og mikla æfingu þá held ég að ég hafi bara staðið mig ágætlega. Það var hlegið á réttum stöðum, eða þegar ég reyndi að vera fyndinn, ég hljómaði held ég ekki stresaður og ég fékk mikið hrós fyrir. Sérstaklega þar sem ég var áberandi yngsti fyrirlesarinn með mjög svo óformlegan fyrirlestur.

Það er samt pínu fyndið hvað líkaminn er ekki alveg tengdur við hausinn á manni stundum. Ég var alveg með efnið pottþétt í hausnum á mér, en þegar á hólminn var komið þá virtist líkaminn vera eitthvað stressaður greyið þar sem hann titraði svona rosalega stundum að ég lagði bara cue-kortin mín á púltið til þess að vera ekki að auglýsa þessa vanhæfni mína. En það er samt æðisleg tilfinning þegar maður fær áhorfendur á sitt band og róast vel niður eftir fyrsta brandarann, þá heldur maður bara ótrauður áfram. „Public speaking“ stress er nefnilega alveg mjög hátt á skalanum yfir það sem fólk vill helst ekki láta koma fyrir sig, þannig að svona létt stress er bara jákvætt. Minnir mig á þegar ég var að byrja að spila á tónleikum, þá fann maður alltaf fyrir nettu stressi áður en maður fór á svið.

Ég var búinn að kynna mér hin og þessi fyrirlestraform til þess að reyna að vera ekki bara enn einn gaurinn með leiðinlega tölu. Ég einbeitti mér að því að vera hnitmiðaður og skýr milli þess sem ég sagði fyndnar sögur úr starfinu sem vöktu mikla lukku. Glærusýningin mín var algerlega tilganglaus án mín með samhengislausum stikkorðum til að styðja mál mitt, ekki samansafn upplýsinga sem fólk les á meðan það gleymir fyrirlesaranum. Þannig að ég var vonandi það óhefðbundinn til að fólk muni eftir manni.

Annars bendi ég bara á þetta vídjó máli mínu til stuðnings. Alveg frábær leið til að komast að hinu gullnu reglum fyrirlestra.

Auglýsingar

Fasteignaleigu-prettir

Undanfarna daga hef ég verið að leita mér að íbúð í miðborg Madrid. Fyrir þá sem ekki vita er ég á leiðinni út í nám í „Audio Engineering“, sem engum manni dyttti í hug að beinþýða yfir á íslensku og ákvað að slá tvær flugur í einu höggi og betrumbæta spænskuna mína í leiðinni. Þess vegna varð höfuðborg Spánar fyrir valinu og er ég búinn að skoða idealista.com og craigslist.com meira en eðlilegt þykir seinustu vikurnar.

Á Craigslist.com er hægt að skoða smáauglýsingar þar sem fólk lýsir eftir leigjendum en einnig er hægt að fá sína eigin smáauglýsingu birta. Og til að auka líkurnar mínar ákvað ég að skella einni svoleiðis þar inn. Nema hvað, það vakna alltaf miklar grunsemdir hjá mér þegar ég á við fólk sem sendir mér e-mail vegna íbúðaleigu. Ég á mjög erfitt með að treysta því að fólkið sé í raun og veru það sem það segir sig vera.

Ég lenti t.d. í einni um daginn sem sendi mér upplýsingar um íbúðina sína. Allt til alls og rosa fínt. En svo var staðsetningin á henni á absúrdlega góðum stað, myndirnar sem hún sendi mér voru svona thumbnail myndir sem engum dytti í hug að senda til að selja íbúð og svo að lokum kom; „Svo millifærirðu bara til að byrja með með Western Union fyrstu greiðsluna“. Kannski virkar að pretta fólk svona, en þegar það stendur á Craigslist síðunni að allir sem biðja um Western Union greiðslu séu svikahrappar þá get ég allavega lagt tvo og tvo saman.

Þannig að núna er ég ennþá bara reglulega að skoða auglýsingar með von um að finna fólk sem er í raun og veru að auglýsa íbúðirnar sínar. En ég held að þetta endi bara á því að ég finni hana „on location“ í september, áður en skólinn byrjar. Ég held maður geti bara farið visst langt með þetta í gegnum netið.

Hafið þið átt einhver svona „viðskipti“ í gegnum svona síður?

Lúkas & Depill – Tango & Cash

Depillinn

Hundurinn á heimilinu fékk nýtt heimili í dag. Það er þessi þarna uppi sem er ofaní töskunni. Hann dó ekkert eða neitt svoleiðis. Við þurftum bara að losa okkur við hann. Því miður, því eins þreytandi geltir og hann var þá elskuðu við hann öll mjög mikið og þurfti mikið til að losa okkur við hann. Það var alveg hægara sagt en gert og mjög erfitt því maður var á einhvern hátt orðinn vanur gelgjulega geltinu hans þegar maður kom heim á daginn. En vegna aðstæðna var kominn tími til þess að við fyndum handa honum nýtt heimilinu. Því það kom aldrei til greina að lóga greyinu.

En nóg um sorgina sem fylgir því. Sú æðislega tilviljun olli því að kona á Akureyri tók við honum. Og ekki nóg með það heldur eignaðist hann frægan stjúpbróður, hinn ódauðlega Lúkas. Mögulega frægasta hund Íslandssögunnar. Mér finnst þetta bara svo fyndið að ég varð að deila þessu með ykkur. Vá, mér finnst bara eins og einhver nákominn mér hafi flutt stofnað hljómsveit með Lukas Rossi. Þeir eru nú nauðalíkir.

Fallinn + Sparnaðarleiðir

Ég hef tileinkað mér hugsunarhátt alkóhólistans þegar kemur að því að spara pening. Hingað til er ég ekki búinn að ná einum degi í engri eyðslu-neyslu. Ég vakna á hverjum degi með það mantra að eyða engum pening í dag. Reyni að taka einn dag í einn, líkt og alkahólistinn. Ég reyni að sigrast á lönguninni að kaupa mér mat í hádeginu, frekar fara heim eða kaupa það ódýrasta bara til þess að eiga pening seinna.

Skyndibitafæðið og matarkaup er kannski helsti löstur minn því ég get alltaf farið heim til mín og fengið mér eitthvað þar sem það kostar mig ekkert. En stundum er auðveldara, og skemmtilegra að kaupa sér mat úti. Margar ástæður geta legið þar á baki, kannski kemst maður ekki heim, fær takmarkaðan matartíma, þarf að vera einhversstaðar annars staðar eða ákveður að borða lunch með vinum. Þá býðst sá kostur ekki að borða heima hjá sér. Það eru samt til margar leiðir til að komast hjá því að kaupa sér mat þegar maður er lagður af stað í daginn sinn.

  • Borða morgunmat áður en maður fer í vinnuna. Þá geturðu sleppt því að koma við í bakaríinu á leiðinni í vinnuna og eytt 500 kr í smurt rúnstykki, drykk og sætt stykki. Það er ótrúlegt hversu mikið er hægt að spara bara með því að sleppa þessu.
  • Smyrja sér nesti eða taka með sér einhverskonar mat í vinnuna. Þá sleppir maður við það að kaupa sér í mötuneytinu, eða að þurfa að skreppa út í 10-11 til þess að svara svengdinni. Svo ef maður borðar fyrir vinnu þá þarf maður oft ekki á neinu að halda í fyrra kaffinu nema kannski einn ávöxt eða svo. Og það er ekkert mál að kippa með sér einum banana eða epli með sér. Þetta getur sparað manni annan 2-300 kallinn á dag.
  • Ef möguleiki er fyrir hendi þá er um að gera að skreppa heim í mat. Þetta á náttúrulega ekki við um alla því sumir vinna mjög langt frá sínum heimilum. Því eyðir maður miklum peningum í mat í hádeginu, og mögulega enn meiri ef vinnustaðurinn inniheldur ekki mötuneyti.
  • Að elda afganga er góð sparnaðarleið. Fyrir fólk sem er mikið fyrir að elda sér góðan kvöldmat þá getur það bara tekið á sig að elda einum skammti stærri kvöldmat til að taka með sér sem hádegismat. Maður verður fljótt geðveikur á brauðsneið og skyri í hádegismat á hverjum degi. Getur sparað þér um ca. 1000-1500 krónur á dag.
  • Millimála langanir í mat geta verið erfiðar því maður fer oft út og kaupir sér nammi eða aðra álíka óhollustu fyrir of mikinn pening. Því er um að gera að kaupa sér orkustangir, t.d. Special K eða Fruit´n´Fibre stangir sem maður fær sér þegar maður finnur fyrir matarþörf. Kassarnir kosta undir 400 krónunum og geta dugað í ca viku. Í staðinn fyrir að eyða 300 kr á dag í óhollara nammi, því Special K er ekki sykurminnsta stöngin á markaðnum, en ódýrari er hún.

Ef vel gengur geturðu sparað þér í kringum 2000 krónum á dag. Þó svo að þurfi að reikna inn ýmsan kostnað eins og á nestinu og þessháttar þá kemur maður alltaf út í plús.

Mig langar það bara ekkert.

Ég horfði á Office Space um helgina seinustu á iPod frá Paris til Grenoble og síðan þá hefur verið svona letileg deyfð yfir mér. Ekki þessi sem einkennist af einhverri þreytu og aumingjaleti. Þetta er góð leti, ekki slæm leti. Svona svipað og AIDS, gott AIDS og slæmt AIDS. (Fyrir þá sem ekki skilja var þetta ótrúlega ósmekklegur einkahúmor).

Viljið þið vita meira?

Ég var skilinn eftir af Office Space með svona svipaðan hugsunarhátt og aðalpersónan í myndinni þegar hún kemst að því að henni langar bara til þess að sleppa því að gera sem henni finnst leiðinlegt.

Peter Gibbons: uh, I don’t like my job, and, uh, I don’t think I’m gonna go anymore.
Joanna: You’re just not gonna go?
Peter Gibbons: Yeah.
Joanna: Won’t you get fired?
Peter Gibbons: I don’t know, but I really don’t like it, and, uh, I’m not gonna go.
Joanna: So you’re gonna quit?
Peter Gibbons: Nuh-uh. Not really. Uh… I’m just gonna stop going.
Joanna: When did you decide all that?
Peter Gibbons: About an hour ago.
Joanna: Oh, really? About an hour ago… so you’re gonna get another job?
Peter Gibbons: I don’t think I’d like another job.
Joanna: Well, what are you going to do about money and bills and…
Peter Gibbons: You know, I’ve never really liked paying bills. I don’t think I’m gonna do that, either.

Þannig að þegar verkefnið hrannast upp á mig þegar ég kem aftur í vinnu og skóla tek ég þessu bara af einskæru kæruleysi, geri verkefnin í rólegheitunum og læt restina bara sitja á hakanum. Það er ekkert slæmt að fara að gerast bara af því ég er ekki með hugann við vinnu/skóla 24/7.

Þannig að á meðan verkefnin hellast yfir mig og e-mailin fylla inboxið tek ég þessu bara með stóískri ró og plana frí í vinnunni alla helgina. Það er stundum ekkert betra heldur en að segja bara eitt stórt FUCK YOU við verkefnin, hlaða bílinn af frábærum mat og góðu rauðvíni og bruna út úr bænum. Algerlega oblivious við hvað svo sem gerist á meðan.

Hver veit, kannski leysast einhver af þessum verkefnum af sjálfum sér.

Viðburðarríkt líferni á röngunni.

Það kemur öðru hvoru fyrir mann að maður á dag þar sem ekkert virðist gerast og þú ert nær dauða en lífi af leiðindum. Og sama hversu mikið þig langar til að vera aktívur og gera eitthvað þá bara einfaldlega tekst það ekki. Það er eins og lífskrafturinn hafi ákveðið að vera ennþá þunnur eftir ærlegheit helgarinnar og sendir líkamann og persónuna einan í vinnuna þar sem hann áorkar einungis broti af því sem gerir á venjulegum degi.

Sem er einmitt það hugarástand sem ég er í núna. Þetta er einhversskonar leiðindarástand sem lýsir sér í orkuleysi. Þetta væri skiljanlegt, eða allavega réttlætanlegt ef ég væri syfjaður og þreyttur. En þar sem ég er glaðvakandi og tilbúinn að kljást við daginn þá skapar þetta bara enn frekara þunglyndi. En stundum koma unglingar inn á skrifstofu hjá mér og gefa mér það sem þeir gerðu í heimilisfræði, og þá lít ég á heiminn sem ekkert svo slæman stað.

Ég lét til leiðast og prófaði að borða á heilsufæðisstaðnum Maður Lifandi í hádeginu. Eins og margir vita þá er ég forfallinn skyndibitasjúklingur sem drekkur of mikið gos og þ.a.l. var það athyglisverð upplifun að borða mat sem átti að vera virkilega hollur fyrir þig. Svo drakk ég sódavatn því ég fattaði í miðri röðinni að þessi staður seldi náttúrulega ekkert eins hræðilegt fyrir þig og kók. Svona svipað eins og unglingarnir myndu koma inn á skrifstofu og spyrðu hvort ég gæti farið í ríkið fyrir þá. En hollustufæðið var ekkert svo slæmt. Það eru reyndar takmörk fyrir hversu mikið spínatbragð mér finnst vera hæfilegt í mat, en þetta var allt vel og ágætt. Ég kysi reyndar Burrito á Serrano´s yfir þennan hvern dag vikunnar, en það er ágætt að prófa eitthvað nýtt öðru hvoru. En þetta endaði ágætlega og ég er vel mettur og þægilegur, annað en þessi þyngsli og þreyta sem á það til að hrjá mann eftir þungan hádegisverð.

Þannig að dagurinn minn er búinn að vera óviðburðarríkur til hins ýtrasta. Það eina ánægjulega sem ég gerði var bara þessi hádegismatur, því það er alltaf gott að skreppa í mat með þeim sem manni þykir vænt um.

Svefntilraunir, slit.

Ég hef ákveðið að slíta þessari tilraun minni með svefn. Þar sem ég er nú orðinn veikur með hálsbólgu og kvef sé ég engan tilgang í að vera vakandi fleiri tíma á sólarhring til að láta mér líða illa í veikindum mínum. Ég veit ekki hvort ónægur svefn minn hafi orðið til þess að flýta fyrir veikindum mínum en það má alveg athuga það.

Þessi tilraun min var því mögulega bæði til góðs og ills. Ég gat alveg meikað þessa daga á þessum litla svefni ef ég þyrfti, með smávægilegum blundum inn á milli. En þær urðu til þess að ég missti aðeins meira en ég hefði viljað, bæði heilsusamlega og tilfinningalega.

Þannig að ef aðstæður ykkar eru góðar og fyrir hendi fyrir svona tilraun, endilega látið reyna á þetta.


Björgvin Benediktsson

Mínar hugsanir varðandi daglegt líf og þær hugsanir sem það vekur mér í brjósti.
apríl 2018
M F V F F S S
« Sep    
 1
2345678
9101112131415
16171819202122
23242526272829
30  
Auglýsingar