Archive for the 'Félagstengsl' Category

Draugar fyrsta ársnema

Ég sá gamla vofu seinustu helgi. Mann sem gjörsamlega hvarf af yfirborði jarðar þegar ég var sautján ára gamall. Því var ég mjög hissa að sjá hana labba upp af klósettinu á English Pub algerlega óafvitandi um undrun mína. Svo ekki sé talað um að hann mundi ekkert eftir mér og gjörsamlega horfði í gegnum mig.

Þegar ég á fyrsta ári í Flensborg var mér plantað ásamt mörgum öðrum í svokallaðan „elítu-bekk“(ekki mín eigin nafngift, né neinna í bekknum). Við sem vorum í þessum bekk, þ.á.m. Gunni Mastermind, Sigrún Bender og fleiri afburðanemendur höfðum s.s. staðið okkur svona vel á samræmdu prófunum að við fengum að fljóta saman í gegnum fyrsta árið sem heill bekkur í þessum annars fjölbrautasinnaða skóla. Við „nördarnir“ náðum ágætlega saman að miklu leyti þó svo að sumir hverjir voru lokaðri en aðrir á sinn eigin „nördalega“ hátt.

Einn þessara nemenda var svo þessi eini í hópnum sem var algerlega á skjön félagslega við alla hina í hópnum. Þeir sem þekktust innbyrðis áður áttu auðvelt með að tengjast hinum í samstarfi við félaga sína en þessi sat út í horni og lét það algjörlega vera að mynda einhver tengsl við okkur hin. Margir hafa svipbrigði og takta sem maður gleymir ekki eftir að maður kynnist þeim en að segja við ykkur að ég muni eftir einu einasta svipbrigði eða blæbrigðum í skapi er að taka of djúpt í árinni. Ég sé þennan mann fyrir mér annaðhvort sitjandi fyrir framan stofuna sem við áttum að fara í þann daginn með hendur á lærum, réttur í baki bíðandi þolinmóður eftir tímanum eða sitjandi út í horni takandi eftir og skrifandi niður. Eftir eitt ár hefði ég haldið að maður gæti munað eftir einhverju fleiru í fari hans en það er algjör móða þegar kemur að honum.

Á góðum stundum hópuðumst við nokkur kannski saman og ræddum þennan dularfulla samnemenda okkar. Almenn ályktun var náttúrulega sú að fyrst hann var í „elítu bekknum“ þá var hann náttúrulega ekki þroskaheftur. Félagslega lokaður kannski, en langt frá því að vera þroskaheftur miðað við allar tíurnar sem hann virtist fá fyrir vinnuna sína. Því var einungis ein niðurstaða sem hægt var að komast að en hún var náttúrulega sú að þessi maður var ofar okkur öllum í öllu því sem viðkom að vera snillingur. Við vorum bara peð sem fengum að fljóta með í bekknum hans. Hann mætti, lærði og skaraði framúr. Allt í öskrandi hljóði sem gerði okkur hin biluð að geta ekki kynnst honum betur.

Eftir á að hyggja gætum við kannski hafa nálgast hann öðruvísi til að draga hann út úr skelinni. Hann var kannski með hugann annars staðar en við þetta iðjuleysi og þessa drykkjusemi sem einkenndi okkar hugsunarhátt á fyrsta ári. Kannski fengum við bara að vera samferða í gegnum fyrsta ár einhvers komandi snilling Íslands. Ég veit að ég og Gunni ásamt mörgum öðrum úr þessum bekk hafa pælt mikið í þessum dreng. Það að ég hafi komist að því að hann væri enn meðal vor veitir mér að einhverju leyti ákveðna huggun því eftir þetta ár gjörsamlega hvarf hann af yfirborði jarðar og við sáum hann aldrei framar.  Ég veit ekki hvort við vorum eftir okkur vegna þess að við komumst aldrei að neinu um hann eða hvort við vorum bara pirruð yfir því að fengum aldrei að vera betri en hann. En eftir situr óleyst ráðgáta um dreng sem enginn vissi deili á þó við deildum öll okkar námsefni með honum á hverjum degi, árið um kring.

Auglýsingar

Ástarmálin til Indlands og annað ný-aldar outsourcing

Það hafa margir nýtt sér verktaka til að taka að sér verkefni sem þau sjá ekki að þau geta gert sjálf, nenna ekki eða kunna ekki. Kannski færðu vin þinn til að hjálpa þér að laga bílinn þinn því hæfileikar þínir liggja á garðyrkjusviðinu, eða droppar tölvunni þinni sem var að brenna við til fjölskyldumeðlims sem hefur meiri tíma en þú til að laga hana. Þetta eru allt persónulegir greiðar sem fólk tekur oft að sér vegna tilfinningatengsla við hinn aðilann.

En stundum þarftu að ráða einhvern í störfin því þú vilt ekki alltaf vera að bögga vini þína til að gera alla hlutina sem þú hefur ekki tíma fyrir. Fyrir utan allar hinar hefðbundnu leiðir til að finna verktaka fyrir þig hér á landi eru margar aðrar leiðir til þess að láta hlutina gerast. Þó það sé ekki nema bara til að létta álagið á þinni eigin vinnu. Tim Ferris skrifar vel um kosti þess að ráða sér persónulegan aðstoðarmann á netinu í bókinni sinni 4 Hour Work Week. Ef þú ert stórlax í vinnu og vantar einhvern sem getur séð um x-mörg mál fyrir þig, eins og rannsóknir, yfirlit og niðurstöður á alþjóðlegum hlutabréfamarkaði þá er það ekkert mál. Þú ræður bara Indverja í þetta og hann gerir þetta á meðan þú sefur. Vantar helstu heimildir fyrir sögu eldgosa í heiminum frá og með árinu 1000? Lítið mál, þú ræður bara einhvern á www.elance.com og hann verður búinn að senda þér þetta á tölvupóstinn þinn áður en deginum lýkur. Á meðan þú vinnur þína vinnu eru aðrir að undirbúa hana fyrir þig hinum megin á hnettinum.

Ég hef stundum hugsað hversu þægilegt þetta gæti verið. Ég fæ oft hugmyndir af hlutum og bölva þess í hljóði að geta ekki rannsakað þær nánar. Það væri frábært fyrir mig að geta bara einfaldlega sent einfalt e-mail og presto, daginn eftir er ég kominn með heimildirnar sem ég þarf til að byrja undirbúningsvinnuna á bókinni minni, heimasíðu, tónverki, málverki etc.

T.d. Ég þarf að viðhalda þessu bloggi með athyglisverðu efni.

Lausn: Ég þarf tuttugu heimildir, blog og/eða bækur sem fjalla á einhvern hátt um samskipti kynjanna vegna blogggreinar sem ég vil skrifa. Ég þarf heimildir í fyrramálið kl 8:00 GMT tíma þar sem búið verður að flokka allar þessar heimildir þannig að ég geti unnið beint úr þeim en ekki þurft að vaða í gegnum langan texta til að komast að aðalatriðinu/fyndna kommentinu/skuggalegu sögunni.

Eða: Mig langar að setja upp heimasíðu.

Lausn: Mig vantar tíu markaðsetningaráætlanir, flokkaðar eftir kostnaði á því hvernig maður streymir inn hagnað vegna vefsíðna.

Það væri hægt að áorka svo mörgu ef þú gætir látið fólk vinna fyrir þig á meðan þú slefar á koddann.

En hvað með persónulegri mál? Ég talaði um persónulega greiða hjá fólki sem tengist þér tilfinningaböndum. En hvað með að verktakaráða útlending til þess að byggja og viðhalda tilfinningasamböndum. Tim Ferris skrifar um það í bloggfærslu sinni hér hvernig hann outsourcaði öllum deitum sínum til erlendra fyrirtækja sem sáu um að setja hann á deit með eins mörgum og hægt var á einhverjum ákveðnum tíma. Hann endaði með tuttugu deit í þessari fjögurra vikna langri tilraun sinni allt með hjálp fagmannlegra aðstoðarmanna og stefnumótasíðna á netinu. Nú er online-dating menningin mun stærri í útlöndum heldur en hérna heima, eins og ég hef minnst á í gamalli færslu, en það er alveg ótrúlega fyndið hvað þetta virðist vera auðvelt og handhægt, en á sama tíma frekar skuggalegt. Ég meina, þegar heilu vinnuteymin víðsvegar um heim geta bókað við mann stefnumót án þess að maður verði nokkurs vísari? Er það ekki pínuítið spúkí?

Síðan þegar þú ert búinn að nota útlendingana til þess að finna fyrir þig hinn frábæra maka þá geturðu haldið uppi hefðinni og látið persónulega aðstoðarmann þinn sjá um allt það rómantíska þannig að þú getir einbeitt þér að vinnunni. Indverjinn fær bara skilaboð um að sjá um að hún fái fallegt e-card vikulega, hann sér um að bóka leikhúsferðirnar þínar og borð á uppáhaldsmatsölustaðnum hennar. Svo setur hann þetta bara allt inn í dagatalið þitt sem hann hefur aðgengi að og þú þarft aldrei að hugsa um að verða konunni þinni fyrir vonbrigðum. Ég bendi hér á grein hjá Al Jacobs þar sem hann talar um hvernig hann outsourcaði einkalífinu sínu til Indlands með öllu tilheyrandi, þ.á.m. rifrildum við konuna sína.

Þú vinnur vinnuna þína með tvöföldum afkostum, kemur konunni þinni stöðugt á óvart án þess að hafa nokkuð fyrir því, vinnan er undirbúinn á meðan þú sefur og allt er gjörsamlega sett á sjálfstýringu.

„With your hands on the wheel, let the golden age begin“


Björgvin Benediktsson

Mínar hugsanir varðandi daglegt líf og þær hugsanir sem það vekur mér í brjósti.
apríl 2018
M F V F F S S
« Sep    
 1
2345678
9101112131415
16171819202122
23242526272829
30  
Auglýsingar